Samfélagsmál : Yfirlit greina
Örsmá króna, ábyrgðarleysi og brask
Ekki hefur farið framhjá nokkrum manni að 10 ár eru liðin frá hruninu. Áratugur ætti að vera nógu langur tími til að menn nái skýrri sýn á atburði, en því miður eru sárin það djúp að fólk er enn að deila um orsakir og hverjir séu helstu sökudólgar og verða eflaust að því minnst 10 ár til viðbótar.
Blekkingum beitt gegn þjóðinni
Ríkisstjórn Íslands átti möguleika á að bjarga einum bankanna haustið 2008, með því að fara að hugmyndum breska fjármálaeftirlitsins um að koma Icesave innlánsreikningum Landsbankans hið snarasta undir breska lögsögu. Til þess að svo yrði þurfti Landsbankinn 200 milljón punda fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. En forsætisráðherra var blekktur til að samþykkja miklu hærra lán til Kaupþings. Allur gjaldeyrisforðinn rann þar á einu bretti í vafasamar björgunaraðgerðir Kaupþingsmanna, þar sem helsta markmiðið var að tryggja stjórnendum bankans, mönnum sem höfðu stýrt skráðu félagi í örfá ár, milljarða í eigin vasa.
Hverjum skal reyna að bjarga (eða ekki)?
Símtal
þáverandi seðlabankastjóra og forsætisráðherra 6. október 2008 verður að
teljast um margt áhugavert. Ég hef frá hruni velt því fyrir mér hvers
vegna reynt var að bjarga Kaupþingi en Landsbankanum fórnað. Með því er ég ekki
að segja að tilraun til að koma Landsbankanum gegnum hrunið á alþjóðlegum
fjármálamarkaði hefði endilega borið árangur. Eftiráspeki lík og sú, sem
beitt hefur verið í hrunmálum, er að sjálfsögðu meingölluð eins og allir vita. Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja
hvað réð kasti. Ástæðan er sú að ég veit fyrir víst að Landsbankinn var með
miklu traustari veð fyrir mun lægri lánsupphæð. Fjárhæð sem hefði a.m.k.
dugað til að koma Icesave í skjól, sem var jú eitt mesta áhyggjuefni
stjórmálamanna á þessum tímapunkti (sérfræðingar sem störfuðu með mér höfðu
reyndar ítrekað bent þeim aðilum á að engin ríkisábyrgð væri á Tryggingasjóði
innistæðueigenda, en það er önnur saga). Auk þess veit ég að fjárhagsstaða
Landsbankans var síst verri en Kaupþings, og líklega mun betri.