Umsögn Björgólfs Thors Björgólfssonar um bók Árna Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra – Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar

 

Bók Árna Mathiesen, sem var fjármálaráðherra fram til byrjun árs 2009 og annar tveggja reyndustu ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde sem mynduð var sumarið 2007, er um sumt forvitnileg og ýmislegt kemur þar fram sem varpar ljósi á aðdraganda þeirra afdrifaríku ákvarðana sem ríkisstjórnin tók í lok september og byrjun október 2008.

Árni Mathiesen kýs að takmarka frásögn bókarinnar að mestu við atburðarás sem hefst í september 2008 og lýkur þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklast frá í febrúar 2009. Á því tímabili tók ríkisstjórnin þrjár ákvarðanir sem mikil áhrif höfðu á atburðarás hrunsins og afleiðingar þess.   Í fyrsta lagi var tekin ákvörðun um að ríkið tæki yfir 75% í Glitni og um leið var því hafnað að styðja tilraunir til sameiningu banka við þær aðstæður sem upp höfðu komið við fall Lehman Brothers. Í öðru lagi tók ríkisstjórnin enga ákvörðun um aðgerðir frá því lánshæfismat ríkis og banka féll hrapallega og endar þrepi ofar en í ruslflokki þriðjudaginn 30. september 2008 þar til ákvörðun var tekin um leggja fram neyðarlög um yfirtöku ríkisins á fjármálafyrirtækjum aðfararnótt mánudagsins 6. október 2008[1]. Þar með hafnaði ríkisstjórnin aftur stuðningi við tilraunir um sameiningu bankanna við þessar óvenjulegu aðstæður. Í þriðja lagi tók ríkisstjórnin ákvörðun um að styðja Kaupþing með láni að fjárhæð um 500 milljónir evra aðfararnótt mánudags 6. október 2008, „í einhverjum undarlegasta og óskiljanlegasta gjörningi hrunsins,“ eins og það hefur verið kallað.[2] Eins og fram kom í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands, frá því í nóvember 2008, var ríkisstjórnin á sama tíma að hafna ósk Landsbankans um stuðning sem nam sambærilegri fjárhæð til að vinna því framgang að Icesave-reikningar bankans yrðu fluttir í flýti yfir í lögsögu breska innlánatryggingasjóðsins.

Þó svo bók Árna Mathiesen varpi ljósi á eitt og annað í atburðarásinni þessa örlagaríku daga fer því fjarri að hún skýri með fullnægjandi hætti hvers vegna ríkisstjórnin tók þær ákvarðanir sem hún tók. Margt getur legið þar að baki; Árni Mathiesen þarf ekki að hafa verið með í ráðum og hafi hann verið með í ráðum er ekki víst að hann hafi verið upplýstur um alla þætti málsins eða þá að hann hafi verið upplýstur en ekki að fullu skilið mikilvægi þeirra upplýsinga sem fyrir lágu. Þá getur verið að í bók sinni segi Árni ekki allan sannleikann enda erfitt að gera kröfu um slíkt þegar greina þarf frá flókinni atburðarás þar sem líklega þarf að taka tillit til hagsmuna  vina og náinna samstarfsmanna.

Hér til hægri í vallista má finna þá fjóra kafla sem athugasemdirnar skiptast í. Þá má finna athugsemdirnar í heild sinni hér.



[1] Víða hefur komið fram að frá miðjum september og fram undir miðjan október voru nær allar ríkisstjórnir Vesturlanda að undirbúa aðgerðaáætlun til verndar bankakerfum sínum og í bókum stjórnmálamanna eins Gordon Browns, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og Hank Paulson, þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, var talsvert samráð á milli ríkisstjórna. Þegar upp var staðið höfðu bandarísk stjórnvöld stutt sitt bankakerfi um USD 700 milljarða, bresk stjórnvöld GBP 400 milljarða, þau þýsku um €500 milljarða, frönsk um €360 milljarða, hollensku €200 milljarða, spænsku og austurísku €100 milljarða hvor, ítölsku €40 milljarða í endurfjármögnun bankanna og síðan ótakmarkaðar ábyrgðir og þá studdu ríkisstjórnir landa á borð við Portúgal, Danmörku og Sviss bankakerfi sitt verulega.

[2] Illugi Jökulsson í pistli á Eyjunni, http://blog.eyjan.is/illugi/2011/05/03/min-sok-a-hruninu/