Samson hugðist taka lán fyrir 70% kaupverðsins
Samson hópurinn svaraði hinn 2.september spurningum einkavæðingarnefndar í fjórum flokkum sem beðið hafði verið um í bréfi 28.ágúst. Spurningarnar vörðuðu fyrirkomulag eignarhalds, stærð eignarhlutar, fjármögnun og framtíðarsýn. Fram kom að eignarhaldsfélagið yrði íslenskt og í 50% eign Björgólfs Thors, 17% eigu Magnúsar Þorsteinssonar og 33% eigu Björgólfs Guðmundssonar. Ítrekað var að þremenningarnir óskuðu eftir að kaupa 33,3% af heildarhlutafé en einnig var sett fram sú forsenda að kjölfestufjárfestirinn fengi kauprétt að 12,5% af heildarhlutafé LÍ í 24 mánuði frá undirritun. Leitað skyldi eftir því að selja erlendum banka þann hlut. Hvað fjármögnun varðaði kom fram að þremenningarnir hugðust staðgreiða hlutabréfin þannig að kaupverð yrði að fullu greitt innan tveggja mánaða frá undirritun. Gert var ráð fyrir að eiginfjárframlag Samsonar yrði að minnsta kosti 30% og greitt í reiðufé (hluti söluhagnaðar af Bravo bjórverksmiðjunni) og að samið yrði við lánastofnanir um fjármögnun á þeim 70% sem út af myndu þá standa. Hvað varðaði framtíðarsýn var því svarað til að stefnan væri að stækka bankann með ytri vexti og yrði í þeim tilgangi horft á innlendar fjármálastofnanir auk erlendra með mögulegan samruna í huga. Áhersla skyldi einnig lögð á vöxt á erlendum mörkuðum og þá sérstaklega horft til frekari uppbyggingar í Lundúnum þar sem öflugustu fjármálamarkaðir í Evrópu væru staðsettir.