Icesave: Áhættudreifing sem varð táknmynd hrunsins
Landsbankinn hóf söfnun innlána hjá almenningi árið 2006. Var það gert í þeim tilgangi dreifa áhættu og fjölga fjármögnunarleiðum bankans og þá um leið styrkja hann. Þegar bankinn hóf undirbúning þessara innlána var nægt framboð fjár á lausafjármörkuðum eins og annar fyrrum bankastjóra Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson hefur bent á, og því var stofnun Icesave-reikninganna ekki viðbrögð við lausafjárþröng eins og oft heyrist í eftiráskýringum. Bankinn var ekki að sækja fjármuni í nýjar lögsögur þar sem innlánareikningarnir voru opnaðir á mörkuðum sem bankinn hafði þegar starfað á um alllangt skeið. Því var bankinn í raun að fylgja eftir annari bankastarfsemi eins og t.d. útlánum. Um þetta er hægt að lesa nánar í skýrslu bankastjóra Landsbankans um greiðsluerfiðleika íslenska bankakerfisins.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir að ákvörðun um opnun innlánareikninganna var tekin áður en þrengja tók um lánsfé á heildsölumörkuðum eða á miðju ári 2005. Í skýrslunni segir:
„Snemma árs 2005 opnaði Landsbankinn útibú í London og samkvæmt tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins átti starfsemi útibúsins að vera tvíþætt, annars vegar útlánastarfsemi í formi sambankalána og hins vegar fyrirtækjaráðgjöf. Með bréfi, dagsett 29. júní 2005, tilkynnti bankinn Fjármálaeftirlitinu að ákveðið hefði verið að útvíkka starfsemi útibúsins þannig að hún tæki einnig til móttöku innlána. Fram kom að um væri að ræða móttöku heildsöluinnlána í nafni útibúsins sem aflað yrði fyrir milligöngu Heritable Bank Ltd. Útibúið hóf síðan að markaðssetja rafræna innlánsreikninga undir nafninu Icesave Easy Access í október 2006 en þeir voru einvörðungu ætlaðir einstaklingum.“ (Kafli 18.2 Icesavereikningar Landsbanka Íslands hf. í útibúi hans í London.)
Icesave innlánareikningar Landsbankans hafa sett mikinn svip á alla umræðu á Íslandi um eftrimál hruns íslenska bankakerfisins. Ein helsta ástæða þess er að endanleg niðurstaða málsins lá ekki strax fyrir líkt og með yfirtöku ríkisins á Glitni, setningu neyðarlaga eða með gjaldþroti Seðlabankans þar sem almenningur, sérfræðingar, stjórnmálamenn og fjölmiðlar stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Icesave varð farvegur fyrir stjórnmálamenn og flokka, álitsgjafa og fræðimenn fyrir nær alla umræðu um áhrif fjármálahrunsins á íslenskt samfélag og um nær allt það sem afvega fór á uppgangsárunum. Icesave sem upphaflega dreifði áhættu og jók öryggi varð í kjölfar hrunsins táknmynd alls hins versta í tengslum við útþenslu íslensku bankanna.
Engum blöðum er um það að fletta að Icesavemálið er alvarlegt og getur reynst Íslendingum dýrkeypt. Í ljósi tilurðar reikninganna og umfjöllunar serfræðinga, fjölmiðla og eftirlitsaðila á meðan bankarnir störfuðu fram að hruni eru ævi og örlög þessara reikninga afar athyglisverð.