Eldra efni : Yfirlit greina
Vill halda í framsækinn hugsunarhátt íslenskra starfsmanna
Dr. Claudio Albrecht, nýráðinn forstjóir Actavis, segir í athyglisverðu viðtali við Morgunblaðið í morgun að hann vilji halda í framsækinn hugsunarhátt íslenskra starfsmanna fyrirtækisins. Ég hef í þau tíu ár sem ég hef verið stjórnarformaður félagsins verið þeirrar skoðunar að starfsfólk fyrirtækisins á Íslandi væri félaginu gífurlegur styrkur og það gleður mig að sjá að nýr erlendur forstjóri sjái þetta sömu augum og að ég hafi ekki verið sleginn einhverri þjóðernisblindu. Viðtalið við Dr. Albrecht er annars gott og kemur fram í því skýr og afdráttarlaus sýn og afstaða forstjórans nýja til málefna félagsins.
Rætur Actavis liggja á Íslandi
Ég hef séð í fjölmiðlum að einhver misskilningur er á sveimi um heimilisfesti Actavis eftir að félagið greindi frá því í gær að það kanni hvort ekki sé heppilegra fyrir fyrirtækið að flytja höfuðstoðvar þess til meginlands Evrópu. Átta af 13 yfirmönnum fyrirtækisins búa nú utan Íslands.Hvað sem höfuðstöðvum Actavis líður þá er öruggt að Actavis verður áfram á Íslandi þar sem rætur þess liggja. Verið er að stækka verksmiðjuna í Hafnarfirði, rannsóknar og þróunarstarf og aðrir mikilvægir þættri verða áfram á Íslandi og fyrirtækið mun áfram veita yfir 500 manns störf á íslandi. Þá sé ég að einnig að einhverjir sem fylgjast grannt með mér snúa fyrri ummælum mínum gjörsamlega á haus og fá blaðamenn sem lítið þekkja til mála í lið við sig til að rægja mig.
Pólitísk áhætta að gefa Straumi færi á að lifa
Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, birti er í tímaritinu Þjóðmálum sem kemur út í dag grein sem segir að embættismenn hafi litið svo á að það væri pólitísk áhætta að veita Straumi fyrirgreiðslu í mars 2009 þar sem hægt væri að túlka það sem einhverskonar stuðning við mig. Þá kemur fram í greininni að nær vonlaust er að fá upplýsingar eða gögn frá hinu opinbera um málefnalegar ástæður fyrir því af hverju ósk Straums um lánafyrirgreiðlsu var hafnað og hvers vegna FME tók bankann óvænt yfir í stað þess að hann færi í greiðslustöðvun eins og stjórnendur og eigendru bankans vildu og voru að undirbúa. Voandi fást þessi mál upplýst fyrr en síðar því að hagsmunir 20 þúsund hluthafa í Straumi voru í húfi.
Dr. Albrecht ráðinn forstjóri Actavis
Tilkynnt var í dag um ráðningu Dr. Claudio Albrecht sem forstjóra Actavis. Sigurður Óli Ólafsson sem verið hefur forstjóri í um tvö erfið ár óskaði eftir að verða leystur frá störfum þar sem hugur hans stefnir nú annað. Það er mikil eftirsjá af Sigurði Óla og um leið og ég óska honum velfarnaðar í framtíð þakka ég honum árangursríkt samstarf. Ég bind miklar vonir við Dr. Albrecht sem forstjóra. Hann hefur nær allan sinn starfsferil starfað í lyfjageiranum og fyrir um áratug vakti hann athygli fyrir framgöngu sína sem forstjóri hjá Ratiopharm. Ég leitaði til hans fyrir um einu og hálfu ári og fékk hann til liðs við okkur sem ráðgjafa þar sem hann hefur reynst okkur vel. Það gladdi mig því mjög þegar Dr. Albrecht tók boði okkar um að gerast forstjóri félagsins.