Vanmat á aðstæðum eða vanþekking á viðfangsefninu
Við lestur bókarinnar Árni Matt sækir að sú hugsun að fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ísland hafi haft takmarkaðan skilning á bæði regluverki banka og gangverki þeirra. Um ákvörðun stjórnvalda að þjóðnýta Glitni, sem leiddi til þess að lánshæfismat Glitnis og síðan ríkissjóðs og að síðustu hinna viðskiptabankanna var lækkað, segir fyrrum fjármálaráðherra:
„En þá hafði lánshæfismatið verið fært niður og búið að virkja fullt af „covenöntum“, eða skilmálum í lánasamningum, sem ekki hafði verið sagt frá.“ (Bls. 24.)
Síðar segir Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra:
„Smám saman verður ráðherrunum ljóst að upplýsingarnar hafa ekki allar verið lagðar fram, að enn sé verið að gefa rangar upplýsingar. Ný og áður framandi orð fara að verða mönnum töm á tungu, orð eins og covenantar, sem virðast æ ofan í æ stinga upp kollinum þegar bankamenn neyðast til að upplýsa um enn eitt vandamálið, einhverjir covenantar voru orðnir virkir, staðan hafði þá versnað. En það var ekki tími til að ergja sig yfir þessu. „Við urðum að halda áfram og klára dæmið fyrir mánudagsmorgun,“ segir Árni. „Hins vegar leiddi þetta til þess að við urðum harðari við þá eftir því sem leið á helgina, kröfðum þá um réttar upplýsingar og gengum á þá….“ (Bls. 39)
Hér lýsir ráðherra því yfir að hann hafi ekki vitað um það grundvallaratriði í starfsemi banka að kjör og skilmálar banka við stórar lántökur og útgáfu skuldabréfa grundvallast á lánshæfismati – þ.e. mati á hæfi banka til að taka lán. Það að ráðherra telur að honum hafi „ekki verið sagt frá“ því að skilmálar (e. covenants) bresti við breytt lánshæfismat er eins og bílstjóri haldi því fram að honum hafi ekki verið sagt að forsendur þess að aka á hámarkshraða bresti í hálku.
Þá segir fjármálaráðherra:
„Um leið og bankarnir féllu viku síðar kom svo í ljós hve útlánin voru lítils virði. Að sjálfsögðu rýrnar allt við svona fall en ég held að engum blandist hugur um að þær eignir voru ekki bara að minnka við áfallið sjálft, verðmæti þeirra var miklu minna en bókfært virði þeirra var í reikningum bankanna. Þá fór okkur að renna í grun að Landsbankinn hefði í raun verið fallinn þegar FL Group og Gnúpur voru að falla í upphafi árs 2008 og þeim hafi einhvern veginn tekist að blekkja eftirlitsaðilana, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, og haldið sér gangandi með gengishagnaði og Icesave-innlánum.“ (Bls. 25.)
Í seinni hluta bókarinnar kveður einnig við svipað stef en þá er stuðst við valda túlkun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:
„Skýrslan dregur þetta fram; allir voru blekktir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ríkisstjórnin, allir. Þess vegna er svo erfitt að sætta sig við það að vera talinn hafa vanrækt skyldur sínar, þegar það liggur fyrir og nefndin leggur það þannig upp, að við höfðum ekki rétta mynd af stöðunni og af vandamálinu. Eftirlitsaðilarnir gáfu okkur ranga mynd af stöðunni, ekki vegna þess að þeir væru að reyna að blekkja okkur, heldur vegna þess væntanlega að þeir höfðu heldur ekki réttu upplýsingarnar. Þá er ekki um annað að ræða en að álykta sem svo að bankarnir hafi blekkt.“ (Bls. 179-180.)
Rétt er að taka það fram að skýrsla rannsóknarnefndar dregur það ekki fram að allir hafi verið blekktir. Það er órökstudd ályktun Árna Matt.
Annars koma fram í þessum tilvitnunum í senn lítill skilningur á þeim aðstæðum sem uppi voru haustið 2008, vanþekking á reglum um hvernig bönkum ber að skrá verðmæti eigna sinna í bækur eða á hverju mat eftirlitsaðila byggir og þá er ráðherra ekki upplýstur um stöðu tiltekinna mála sem hann vísar þó í til að styðja ályktanir sínar. Fyrst ber að hafa í huga að verðmæti eigna fjármálafyrirtækja rýrna þegar álíka samdráttur verður á lausafjármörkuðum og var á Vesturlöndum Vesturlöndum og voru íslenskir bankar þar engin undantekning. Stór hluti eignanna var t.d. í skráðum félögum eða með veð í skráðum hlutabréfum og þar bar bönkum samkvæmt alþjóðlegum skilareglum að bókfæra markaðsverðmæti þó svo erfitt sé að fullyrða um að það hefði verið endanlegt söluverð ef reynt hefði verið að selja við umræddar aðstæður. Það hefði því ekki átt að koma reyndum ráðherra á óvart við þær aðstæður sem uppi voru á fjármálamörkuðum í okkar heimshluta á árinu 2008 að eignir stóðu veikt. Og það er síðan rétt hjá Árna Mathiesen þegar hann segir að eignir veikjast enn frekar við áfallið sjálft.
Í öðru lagi veltir fjármálaráðherra síðan vöngum í þáskildagatíð þegar hann segir að honum ásamt einhverjum fleirum sem hann tilgreinir ekki frekar hafi farið að renna í grun að Landsbankinn hefði í raun verið fallinn þegar FL Group og Gnúpur hefðu verið að falla í ársbyrjun 2008. Þarna hefði ráðherra mátt vita – ef hann hefði spurt, að Landsbankinn varð fyrir litlu sem engu tjóni við fall Gnúps – það lenti annars staðar.
Í þriðja lagi þegar ráðherra segir að Landsbankanum hafi tekist að blekkja eftirlitsaðila, Seðlabankann og Fjármálaeftirlit þá virðist hann ekki vita hvernig reglubundið eftirlit útlána og mat á þeim fer fram því öllum þessum aðilum var ljós útlánaáhætta bankans vegna stærstu viðskiptavinanna. Hún var talin viðunandi því henni var dreift samkvæmt uppskrift um áhættudreifingu – á milli viðskiptaaðila, atvinnugreina og landa og markaðssvæða[1]. Enginn – hvorki í Landsbankanum, hjá alþjóðlegu matsfyrirtækjunum eða Fjármálaeftirliti, gerði sér á þeim tíma í hugarlund þann möguleika að íslenska fjármálakerfið gæti hrunið[2]. Hefðu allir þessir aðilar í ársbyrjun farið að meta áhættu út frá þeim möguleika að kerfið allt gæti fallið er líklegt að atburðarás hefði orðið önnur.
Í fjórða lagi þegar ráðherrann segir að bankinn hafi „haldið sér gangandi með gengishagnaði og Icesave-innlánum“ þá afhjúpar hann enn skilningsleysi sitt á þeirri einföldu staðreynd að ekki nokkur banki getur á einum og sama deginum staðið við allar sínar skuldbindingar og þess vegna er sagt að enginn banki þoli áhlaup. Lausafjárstaða bankans miðast við getu bankans til að standa við umsamdar skuldbindingar á hverjum tíma en ekki við að geta greitt allar skuldbindingar á hverjum einasta degi ef þannig viðrar. Allir vissu að eignir Landsbankans sem og flestar aðrar eignir á Vesturlöndum voru veikari en áður og því var það talið til styrks bankans að hafa aðgang að Icesave-innlánum og þar með hafa til reiðu lausafé til að standa við skuldbindingar sínar á meðan lausafjárkreppan gekk yfir heiminn og þangað til eignir sem alltaf sveiflast að verðmæti næðu sér aftur á strik. Þetta vissu allir sem að málum komu og þeir skildu þessi lögmál enda hafa þau talist til grundvallarlögmála í bankaviðskiptum í á aðra öld. Það vekur sannarlega eftirtekt að fjármálaráðherra hafi ekki skilið og skilji ekki enn þessa eðlisþætti í starfsemi banka. Ásakanir hans um blekkingar bankamanna verða í þessu ljósi marklausar.
Gordon Brown, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, fjallar[3] um það sem Árni Matt kallar blekkingar bankamanna í nýútkominni bók sinni. Hann bendir á að sjónarhorn einstakra bankamanna gat ekki gefið þeim þá heildarsýn yfir kerfið sem þurfti til að sjá hina eiginlegu stöðu eigna á markaði. Brown telur ekki að þeir hafi verið að blekkja heldur vissu þeir ekki betur. Stjórnvöld höfðu forsendur til þess að hafa yfirsýn og því bar þeim að setja upplýsingar um bankanna í samhengi sem þau voru ein fær um.
Fjármálaráðherrann fyrrverandi og sá sem átti örlagaríkt símtal við fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, þriðjudaginn 7. október 2008 m.a. um Icesave-skuldbindingar virðist ekki heldur hafa á hreinu útá hvað viðræður um flutning Icesave-innlánareikninganna gengu. Um það segir hann:
„Ef banki er færður þá þarf bankaeftirlitið í viðkomandi landi að viðurkenna hann, fara í gegnum fjárhag hans og rannsaka hver staða hans er. Ef við hefðum reynt það með einhvern bankanna okkar á árinu 2008, þá hefði að öllum líkindum ekki verið tekið við neinum þeirra. Ef þeir hefðu farið í gegn um lánabækurnar hefði komið í ljós hver staða lánanna var og þá hefði uppgötvast fölsun þeirra á eigin fé, þannig að þeir gátu aldrei flutt.“ (Bls. 179)
Í fyrsta lagi er rétt að taka fram að aldrei stóð til að flytja banka. Flutningur Icesave-reikninganna gat átt sér stað annaðhvort með því að dótturfélag Landsbankans í Bretlandi, Heritable Bank sem starfaði með bresku bankaleyfi og veitti m.a. einstaklingum húsnæðislán, tæki reikningana yfir eða með því að útibú Landsbankans í London yrði sjálfstætt dótturfélag. Í hvorugu tilfellinu þurfti bankaeftirlit í Bretlandi að viðurkenna Landsbankann í heild sinni eins og ráðherra gefur til kynna og þvælir með almennum og óljósum hætti inn í rökstuðning sinn þeirri skoðun sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að eigið fé bankanna hafi verið veikt. Fyrir utan nær enga lagalega stoð fyrir hugtakinu „veikt eigið fé“ þá er rétt að taka fram að í tilfelli Landsbankans tengist sú umfjöllun skýrslunnar fyrst og fremst fjármögnun eignarhluta í Landsbankanum sem bankinn hafði samið við starfsfólk um vegna kauprétta, en lang stærsti hluti þeirrar fjármögnunar var utan bankans. Aldrei hefðu bresk fjármálayfirvöld farið að hafa skoðanir á því og því með ólíkindum að fyrrverandi fjármálaráðherra skuli blanda þeirri umræðu inn í málefni Icesave. Yfirvöld ytra hefðu hins vegar skoðað hvaða eignir stæðu að baki skuldbindingum bankans vegna Icesave-innlánanna. Líklegt verður að telja að bankinn hefði staðist þá skoðun því eins og fram kom í fréttum síðla árs 2010 og hefur ítrekað síðan þá bendir allt til þess að eignir útibúsins í Lundúnum fari langt með að standa undir kröfum breskra og hollenskra yfirvalda. Útistandandi ágreiningur vegna Icesave varðar vexti af þeim fjármunum sem bresk og hollensk stjórnvöld reiddu fram veturinn 2008/2009. Það virðist því sem fjármálaráðherra hafi ekki áttað sig á um hvað flutningar á Icesave-reikningum í breska lögsögu hafi snúist.
Umfjöllun ráðherra og bókaritara hans um vanda Glitnis og úrlausnir á þeim vanda sem upp kom í framhaldinu veita athyglisverða innsýn inn í skilning þeirra og sýn á það vandamál sem við var að stríða.
Fyrst var unnið út frá því að verja Glitni eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að leggja 84 milljarða hlutafé í bankann í því skyni að forða honum frá falli. Þrátt fyrir það voru vandræði hans fráleitt úr sögunni. Þvert á móti. Glitnir sogaðist niður með vaxandi vanda hinna bankanna. Alls staðar var við sama vanda að etja, veðköll og slitnar lánalínur, og hremmingarnar virtust frekar aukast en minnka þrátt fyrir boðaða hlutafjárinnspýtingu ríkisins. Stjórnendur Glitnis áttu því erindi við fjármálaráðherrann á meðan fundirnir stóðu yfir í Ráðherrabústaðnum. (Bls. 48)
Hér er í fyrsta lagi sláandi hversu litla yfirsýn ráðherra og aðrir ráðamenn hafa á hvernig vandi eins banka veikir heilt bankakerfi og hvernig viðbrögð breytast eftir því hvort glímt er við vanda eins banka og/eða bankakerfis. Af því sem fram hefur komið opinberlega, sem er í fullu samræmi við það sem kemur hér fram í þessari bók fjármálaráðherra, þá var ekki strax hafist handa við að skilgreina með skýrum hætti vanda kerfisins í heild og mat lagt á hvaða eignir bankanna væru sterkastar og mikilvægastar fyrir bæði íslenskt bankakerfi og einnig íslenskt atvinnulíf og efnahag[4]. Eftir að ljóst varð að stuðningur hins opinbera gat bara orðið lítill þá átti að vera mikilvægast að styðja við það sterkasta og reyna þannig að halda einhverju eftir. Það var ekki gert heldur ákváðu stjórnvöld og þá um leið fjármálaráðherra að leggja 84 milljarða inn í þann banka sem var veikastur – Glitni. Veikleiki þess banka smitaði síðan kerfið í heild. Það er undarlegt að lesa að „Glitnir sogaðist niður með vaxandi vanda hinna bankanna“ þegar í raun viðbrögð ríkisvaldsins urðu til þess að hinir bankarnir soguðust niður með Glitni. Ég er ennþá þeirrar skoðunar að ef sameinaður banki Straums og Landsbankans hefði getað yfirtekið Glitni með eiginfjárstuðningi ríkisins (eða víkjandi láni) hefðu mál getað endað á farsælli veg en raunin varð. Skipting eignarhluta í þeim banka hefði ekki skipt sköpum. Mestu hagsmunirnir fólust í að verja kerfið. Sú aðgerð hefði styrkt stoðir bankakerfisins, viðhaldið lánshæfismati ríkis og bankanna og veitt íslenskum fyrirtækjum stuðning, en Landsbankinn var frá gamalli tíð með langstærsta hluta íslenskra fyrirtækja í viðskiptum. Enn sem komið er hafa engin haldbær rök komið fram, sem byggja á upplýsingum sem stjórnvöld voru með handbærar umrædda helgi, sem skýra af hverju stjórnvöld létu a.m.k. ekki kanna frekar möguleikann á sameiningu Straums, Landsbankans og Glitnis með aðkomu ríkisins. Eftir því sem upplýsingar um hvað gekk á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka birtast jafnt og þétt virðist einboðið að stjórnvöld hafi ekki skilið vandann og gert lítið til að verða sér úti um upplýsingar, efla skilning og þróa mögulegar lausnir.
Í eftirfarandi kafla, sem meðhöfundur Árna Mathiesen setur fram en hefur ekki beint eftir fyrrum ráðherra, koma fram eftiráskýringar og ásakanir sem staðfesta enn frekar að aðstandendur bókarinnar hvorki þá né nú tveimur árum síðar bera skynbragð á þær aðstæður sem við var að glíma:
Fulltrúar allra stóru bankanna höfðu þá komið í Ráðherrabústaðinn og allir áttu þeir það sammerkt að staðan hafði versnað frá því að þeir hittu ráðherrana daginn áður og – það sem meira er – á fundunum kom smám saman í ljós að staða þeirra var mun verri en þeir gáfu til kynna í byrjun fundar. Það sem síðar kom á daginn um raunverulega stöðu bankanna á þessum tíma, og fjallað er um í Skýrslunni, bregður afar sérkennilegu ljósi á framgöngu forsvarsmanna bankanna. Staða þeirra var miklum mun verri en þeir gáfu til kynna, jafnvel eftir að þeir neyddust til að upplýsa um nýjar og nýjar skuldbindingar sem voru við það að falla í gjalddaga eða veðköll voru gerð á. Vissu þeir ekki betur? Höfðu þeir ekki yfirsýn yfir fyrirtækin sem þeir stjórnuðu og báru ábyrgð á? Trúðu þeir í raun og veru sjálfir að íslenska ríkið, miklum mun minna en bankarnir mælt á peningalegan mælikvarða, gæti bjargað þeim? Trúðu þeir því sjálfir að yfirleitt væri hægt að bjarga bönkunum, sem þeir máttu vita að voru gjaldþrota eða yrðu það á næstu vikum eða mánuðum? (Bls. 42-43.)
Væntanlega voru fulltrúar íslensku bankanna í góðri trú að gera það sama og nær allir forsvarsmenn banka á Vesturlöndum voru að gera í september og október 2008[5]; að ræða við stjórnvöld um aðkomu þeirra og stuðning vegna þess að fjármálamarkaðir heims voru í ölduróti sem aldrei fyrr vegna lausafjárþurrðar og gífurleg óvissa ríkti um hvað yrði úr verðmæti eigna ef þyrfti að selja þær við þessar aðstæður – ef þá væri hægt að selja þær.
„Staða þeirra var miklum mun verri en þeir gáfu til kynna …“ – Nei, ekki endilega, en hitt var ljóst að staðan versnaði stöðugt – m.a. vegna yfirtöku ríkisvalds á Glitni og aðgerðaleysis í viku þar á eftir.
„Vissu þeir ekki betur?“ – Já og nei, þeir sáu ekki hvaða forsendur myndu breytast en þeir vissu hvað gerðist ef þær breyttust á tiltekinn hátt.
„Höfðu þeir ekki yfirsýn yfir fyrirtækin …?“ – Jú, væntanlega – en staða þeirra breyttist frá einni stund til annarrar.
„Trúðu þeir því sjálfir að yfirleitt væri hægt að bjarga bönkunum, sem þeir máttu vita að voru gjaldþrota eða yrðu það á næstu vikum eða mánuðum?“ – Já, trúðu og vonuðu. Þeir gátu ekki – öfugt við höfunda bókarinnar sem virðast hafa auga Óðins – séð fram á gjaldþrot á næstu vikum eða mánuðum. Ekki frekar en starfsmenn Lehman Brothers, sem sáu ekki gjaldþrotið sem kom fjármálaheiminum í opna skjöldu 14. september 2008 eða starfsmenn RBS (Royal Bank of Scotland) sem sáu ekki gjaldþrotið sem var með naumindum afstýrt í fyrstu viku október 2008 vegna þess að bresk stjórnvöld björguðu honum fáeinum klukkustundum áður en hann þraut[6]. Ef þetta var öllum ljóst hvers vegna ákvað ríkisstjórnin þá að lána Kaupþing 500 milljónir evra?
Þá er rétt að benda á að þessi predikun fyrrum ráðherrans og skrifara hans er ekki í fullu samræmi við ályktun annars staðar í bókinni þess efnis að bresk stjórnvöld hafi veitt Kaupþingi „náðarhöggið“ og að það sé „ófyrirgefanlegt“. (Sjá bls. 49.)
[1] Í sumum erlendum uppgjörsbókum hefur verið á það bent að hefðbundar aðferðir banka við dreifingu áhættu hefðu veitt falskt öryggi. Samhliða alþjóðavæðingu fjármálakerfisins og þróun á nýjum afurðum á fjármálamarkaði hafi bankar ekki þróað samtímis nýjar aðferðir við mat á áhættu. Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, dregur þetta t.d. fram í bók sinni Beyond the Crash – Overcoming the First Crisis of Globalisation; Simon and Schuster 2010.
[2] Ljóst er að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, var með munnlegan málflutning í febrúar 2008 í þá veru að bankakerfið gæti hrunið þ.e. ef marka má skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en ekki er að sjá að gripið hafi verið til ráðstafana eða aðgerða sem sýna fram á að saman hafi farið hugur seðlabankastjórans og hönd Seðlabanka Íslands.
[3]Brown,G: Beyond the Crash – Overcoming the First Crisis of Globalisation; Simon and Schuster 2010, bls. 17-66.
[4] Það kemur skýrt fram í bókum sem skrifaðar hafa verið um hvað gekk á í bönkum og stjórnsýslu í Bandaríkjunum og Bretlandi haustið 2008 að á þessum tíma voru stjórnvöld í þeim löndum búin að gera sér grein fyrir að vandinn væri í kerfinu í heild en ekki bundinn við einstaka banka og það sem meira var að bankarnir sjálfir sæju ekki með skýrum hætti kerfisáhættuna – sbr. Sorkin: Too Big to Fail, Allen Lane-Penguin Books 2009, Hank Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna: On the Brink, Headline Publishing Group, 2010, og Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands (sjá tilvitnun 1 að ofan). Í bók Browns kemur fram að hann átti í samskiptum um þessi mál við aðra þjóðarleiðtoga um þessi sjónarmið sín, þar á meðal forsætisráðherra Noregs og Danmerkur.
[5] Í áðurnefndum bókum (sjá tilvitnun 5) og víðar hefur komið fram hvernig yfirvöld stýrðu vegferðinni og kölluðu til forystumenn fjármálafyrirtækjanna til að þróa og kanna úrlausnir sem reyndu á aðkomu markaðarins. Þessa daga og nætur var her sérfræðinga í hverjum einansta banka að meta og greina möguleika undir styrkri forystu stjórnvalda.
[6] Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna 24. september 2009 að stærstu bankar Bretlands hafi aðeins verið klukkustundum frá falli og þar með að bankakerfið allt yrði í uppnámi, – sjá http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=afWmri7ru8QM. Afskipti ríkisvaldsins komu þeim til bjargar.