Sök Samsonar að uppfylla ekki skilyrði sem aldrei voru sett

 

Í ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Landsbankans er athyglisvert að nefndin fjallar ekki um hvort Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi staðið við samning þann sem undirritaður var um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum á gamlársdag 2002. Samson stóð við þann samning í einu og öllu. Rannsóknarnefndin fer hins vegar í mikla skógarferð til að koma þeirri sök á Samson að uppfylla ekki skilyrði sem aldrei voru sett  í samningum. Þá vekur athygli að rannsóknarnefndin skoðar ekki með sama hætti fjármögnun svokallaðs S-hóps við kaup hans á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Í kafla 6.6. eru birtar ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis varðandi einkavæðingu ríkisbankanna. Þar segir á bls. 303:

Í kaflanum var gerð grein fyrir meginatriðum kaupsamninga um Landsbankann og Búnaðarbankann, þ. á m. atriðum varðandi fjármögnun kaupenda. Hér að framan var m.a. vikið að því að stjórnvöld hefðu léð því sjónarmiði þýðingu á lokastigi söluferlis bankanna að með sölunni yrði aflað erlends fjár í ríkissjóð og þá m.a. horft sérstaklega til upplýsinga sem lágu fyrir um nýlega afstaðin viðskipti þeirra einstaklinga sem stóðu að Samson-hópnum á erlendum vettvangi og hagnaðar sem þeir höfðu haft af þeim.Af gögnum úr söluferlinu er einnig ljóst að af þeirra hálfu var ítrekað skírskotað til sömu atriða í samskiptum við stjórnvöld. Sem lið í athugun sinni á því hvernig var endanlega gengið frá atriðum varðandi fjármögnun kaupanda í ákvæðum kaupsamnings um Landsbankann og hvernig þau ákvæði voru síðan framkvæmd aflaði rannsóknarnefndin gagna frá Kaupþingi um lán bankans til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Af þeim gögnum bankans má ráða, sbr. umfjöllun í köflum 6.3.6.3 og 6.3.6.4, að tvö af þeim lánum sem upplýsingar bárust um hafi endanlega, þ.e. burtséð frá tímabundinni millifjármögnun annars staðar frá, verið veitt til þess að fjármagna tvær síðari greiðslur Samsonar (af þremur) vegna kaupa á Landsbankanum. Þessar greiðslur námu samanlagt um 70% af kaupverði bankans eins og það varð endanlega að teknu tilliti til uppgjörs á samningsbundnum frádráttar- og afsláttarliðum. Rannsóknarnefndin vekur í því sambandi athygli á að samkvæmt kaupsamningi um Landsbankann skyldi eiginfjárhlutfall kaupverðsins vera 34,5% og jafnframt að í kaupsamningnum var, að undanskildu banni við fjármögnun kaupanna hjá Landsbankanum sjálfum, ekki kveðið á um takmörkun á því hvaðan kaupandi aflaði lánsfjár. (Kafli: 6.6)

Athugasemdir við þennan kafla eru svohljóðandi:

Þegar rannsóknarnefnd Alþingis skrifar að af hálfu Samson hafi „ítrekað (verið) skírskotað“ til nýlegra viðskipta aðstandenda félagsins ytra í gögnum úr söluferli Landsbankans er rétt að benda á að af um einni tylft bréfa sem Samson skrifaði FnE er þetta atriði nefnt í tveimur þeirra og í síðari skipti vegna fyrirspurna frá FnE. Það sem rannsóknarnefnd Alþingis kallar ítrekun er tvítekning. Í þessari umfjöllun rannsóknarnefndar er horft framhjá því aðalatriði að Samson efndi í einu og öllu samninginn sem gerður var við íslenska ríkið um kaup á 45,8% hlut í Landsbankanum. Rannsóknarnefndin ber annars vegar saman yfirlýsingar Samson í aðdraganda kaupanna og hins vegar illa rökstuddar ályktanir nefndarinnar um tilefni tiltekinna lánsveitinga Kaupþings til Samsonar, en umrædd lán voru veitt 15 mánuðum eftir undirritun samnings um kaup á hlut í Landsbankanum.

Til upprifjunar er rétt að taka fram að Samson greiddi ríkinu fyrir 45,8% hlut í Landsbankanum í þremur greiðslum:

  • Fyrsta greiðsla var eiginfjárframlag Samson og var greidd við undirritun samnings. Greiðslan var að upphæð USD 48.081.731. Um er að ræða greiðslu sem að var um 35% af heildarkaupverði.
  • Önnur greiðsla var fjármögnuð með láni frá Búnaðarbanka, síðar KB, og var greidd 30. apríl 2003. Greiðslan var að upphæð USD 48.272.204. Um er að ræða greiðslu sem að var 35% af heildarkaupverði. Lán þetta var greitt að fullu í apríl 2005.
  • Þriðja greiðslan var svo eiginfjárframlag, í formi lána frá hluthöfum, og var greidd 29. desember 2003. Greiðslan var að upphæð USD 41.725.653. Um er að ræða greiðslu sem var um 30% af heildarkaupverði. 

Því var Samson búinn að greiða að fullu kaup sín á 45,8% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands í árslok 2003 eða innan árs frá undirritun kaupsamnings. Allar greiðslurnar, samtals  tæpar 140 milljónir bandaríkjadala, voru greiddar inn á reikning íslenska ríkissjóðsins í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York. Kaupin voru fjármögnuð 65% með eigin fé frá eigendum og 35% með láni.

Mikilvægt er að fjármögnun Samsonar á kaupunum á Landsbankanum var í fullu samræmi við ákvæði og skilmála í kaupsamningi félagsins við íslenska ríkið. Umrædd lán höfðu öll verið greidd upp þegar bankinn féll.

Þá er rétt að fram komi hér að lán Samsonar í Kaupþingi, sem tekið var í desember 2005 og kallað hefur verið síðasta lánið undir sólinni sem ætti að afskrifa var hluti af skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar í júlí 2010.

Í þessu samhengi er áhugavert að líta til þess hvaða kröfur voru gerðar til S-hópsins við einkavæðingu Búnaðarbankans. Bankinn Hauck & Aufhauser tók aðeins þátt í kaupunum að nafninu til að því er virðist. Ekki er að sjá að hið opinbera hafi með áþreifanlegum hætti kannað hvaðan eiginfjárgreiðslur voru upprunnar og hvort þar hafi verið um innlent lán að ræða sem gert var upp við sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings innan við þremur mánuðum eftir að kaupsamningur var undirritaður snemma árs 2003. Áhöld eru því um hvort gjaldeyrir hafi nokkurn tímann komið til landsins vegna sölu Búnaðarbankans. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varpar ekki ljósi á fjármögnun kaupa S-hópsins á Búnaðarbankanum. Engin skýring er gefin á áhugaleysi rannsóknarnefndarinnar á þessum þætti einkavæðingar bankanna.