Snúið á haus

Rannsóknarnefnd Alþingis snýr veruleikanum á haus þegar hún segir í fyrirsögn að Deutsche Bank „taki þátt“ í fjármögnun á yfirtöku félaga á mínum vegum á Actavis og leggur íslensku bankana að jöfnu við þann þýska í þessum viðskiptum. Hið rétt er að þýski bankinn reiddi fram 93% af öllu lánsfé til viðskiptanna. Íslensku bankarnir 7%.  Því er rétt að segja að íslensku bankarnir hafi tekið þátt í fjármögnun Deutsche Bank á yfirtökunni á Actavis.

Í kafla 8.8.2.1. sem ber fyrirsögnina „Deutsche Bank tekur þátt í fjármögnun yfirtöku á Actavis“ á bls. 173 segir:

Seint í júlí 2007 gekk í gegn yfirtaka Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga sem honum tengdust á lyfjafyrirtækinu Actavis. Salan var stærstu einstöku viðskipti sem nokkurn tímann höfðu átt sér stað í íslensku kauphöllinni, dagurinn sem viðskiptin fóru fram var sá veltumesti og með sölunni komu gríðarlegir fjármunir inn á íslenskan hlutabréfamarkað enda náði íslenska úrvalsvísitalan sínu hæsta gildi nánast samhliða þessum viðskiptum. Fjármögnun yfirtökunnar má greina í fernt, kaupendur lögðu fram eiginfjárframlag, Landsbankinn og Straumur lánuðu hluta og þýski bankinn Deutsche Bank lánaði einnig umtalsverðan hluta. Íslensku bankarnir og Deutsche Bank fjármögnuðu kaupin hins vegar á mismunandi hátt og tóku mjög ólíka áhættu.

Athugasemdir þær sem ég hef fram að færa eru eftirfarandi:

Það er mjög villandi framsetning hjá höfundum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að segja að Deutsche Bank taki þátt í fjármögnun yfirtöku á Actavis. Rétt er að íslenskir bankar tóku þátt í fjármögnun Deutsche Bank, þótt í litlum mæli væri. Íslenskir bankar áttu aðild að 5.5% heildarfjármögnunar þessara viðskipta og um 7% þeirra lána sem veitt voru. Deutsche Bank sá um fjármögnun yfirtökunnar og stýrði því verkefni og veitti um 93% þeirra lána sem veitt voru. Þýski bankinn tók þátt fjármögnun allra lánaflokka og lánaði því að hluta til á sömu forsendum og íslensku bankarnir. Færri íslenskir bankar komust að en vildu við fjármögnunina en tveir íslenskir bankar fengu tækifæri á að lána til yfirtökunnar.