Novator One LP ekki í eigu Novators –Stuðningur við Straum tortryggður

Í umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Novator One LP sjóðinn kemur ekki skýrt fram sú staðreynd að sjóðurinn er í eigu Straums. Þá eru skýringar á láni mínu til Straums tveimur mánuðum eftir hrun stóru bankanna þriggja ófullnægjandi og þar er ekki tekið fram að ég var að styðja við Straum með innláni þegar ég gat ráðstafað fénu á ýmsan annan öruggari og arðbærari hátt.

 

Í kafla 8.12.3.4 um skuldastöðu mína segir á bls. 218:

Landsbankinn var einnig með verulegar skuldbindingar vegna kaupanna á Actavis, eða um 49,5 milljarða samkvæmt yfirliti yfir stórar áhættuskuldbindingar bankans frá 30. september 2008.

Björgólfur Thor var meirihlutaeigandi Landsbankans ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, í gegnum félag þeirra, Samson eignarhaldsfélag. Þeir feðgar áttu einnig meirihluta í Straumi í gegnum annað félag, Samson Global Holdings, en það var í jafnri eigu eignarhaldsfélaga þeirra feðga. Björgólfur Guðmundsson var stjórnarformaður Landsbanka og Björgólfur Thor stjórnarformaður Straums. Björgólfur Guðmundsson taldist til venslaðra aðila í Straumi en ekki til tengdra aðila þar sem hann sat ekki í stjórn bankans þrátt fyrir að vera stór hluthafi.Að sama skapi taldist Björgólfur Thor ekki til tengdra aðila í Landsbanka enda sat hann ekki í bankaráði bankans.Venslaðir aðilar eru skilgreindir í b-lið III. kafla leiðbeinandi tilmæla um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki:

„Fjármálaeftirlitið telur venslaða aðila m.a. vera:

1) Aðal- og varamenn í stjórn, stjórnendur, lykilstarfsmenn og nánir fjölskyldumeðlimir þessara aðila.

2) Með vísan til 1. töluliðar ber að líta til hliðstæðra aðila í dótturfélögum og tengdum félögum.

3) Hluthafar sem eiga með beinum eða óbeinum hætti 5% eignarhlut eða stærri í fjármálafyrirtækinu, eða teljast til eins af tíu stærstu hluthöfum þess.

4) Fyrirtæki sem framangreindir aðilar eiga a.m.k. 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnarstöðum fyrir.“

Lánveitingar til tengdra aðila þurftu sérstakt samþykki stjórnar. Í desember 2008, þegar lausafjárstaða Straums var veik, lánaði bankinn félagi Björgólfs Thors 10 milljónir evra til þess að það gæti endurgreitt lánveitingu til eiganda en í staðinn lagði Björgólfur upphæðina inn sem innlán í Straumi, sbr. fundargerð lánanefndar frá 12. desember 2008:

„Project Paper (samþykkt með tölvupósti 8. desember) Straumur mun lána Novator One LP €10m í 6 mánuði (lán innan samstæðu). Það mun gera Novator One LP kleift að endurgreiða €10m lán frá Björgólfi Thor Björgólfssyni (BTB). BTB mun láta lánið, €10m, liggja sem innlán í Straumi í 6 mánuði. Straumur mun taka veð (handveð) í innláninu til að tryggja lánið til Novator One. Lánstími lánsins og innlánsins verður 6 mánuðir og vextir af láninu til Novator One verða þeir sömu og á innláni BTB. Hér er um að ræða viðskipti á milli tengdra aðila og þarfnast samþykkis stjórnar.“

Lánveitingar Straums til Björgólfs Guðmundssonar þurftu því ekki umfjöllun í stjórn bankans og eins var það í Landsbanka varðandi Björgólf Thor.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi fer rannsóknarnefnd Alþingis ekki rétt með þegar hún segir að Björgólfur Thor ásamt föður hans hafi verið meirihlutaeigendur í Landsbanka Íslands og í Straumi. Víða má finna heimildir fyrir því að í hvorugum bankanum áttu þeir yfir 50% hlutafjár.

Í öðru lagi  eru upplýsingar rannsóknarnefndar Alþingis hér ónógar. Af skýrslunni má ætla að Novator One LP sé í eigu Björgólfs Thors en svo er ekki heldur er sá sjóður í eigu Straums. Sá sjóður stóð á þessum tíma betur en Straumur og hann skuldaði Björgólfi Thor 10 milljónir evra sem þarna fengust greiddar. Björgólfur Thor lagði þær síðan inn hjá Straumi sem víkjandi lán. Í rannsóknarskýrslunni er þess ekki getið að þarna er Björgólfur Thor að styðja við bankann við erfiðar aðstæður. Ávinningur hans var lítill og hann hafði getað ráðstafað þessum fjármunum með öðrum hætti en hann kaus að styðja við Straum. Þetta var rúmum tveimur mánuðum eftir fall Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, en Björgólfur Thor var enn sannfærður um að Straumur myndi þola áfallið og lagði allt undir til þess að svo mætti verða. Skýring á greiðslu þessa 10 milljón evra láns hefur áður komið fram, þ.e. í yfirlýsingu Björgólfs Thors til Fréttablaðsins frá 15. apríl 2010. Þar segir: „Þá er því haldið fram að Björgólfur Thor hafi fengið lán frá Straumi í desember 2008. Þetta er alrangt.  Hið rétta er að Björgólfur Thor fékk greitt til baka lán sem hann hafði veitt Novator One, sjóði í eigu Straums. Þetta fé lagði hann strax aftur til bankans, til að styrkja eiginfjárgrunn hans. Ljóst er að þetta lán hefur tapast að fullu en Novator One er í góðum rekstri.