Lán í Búnaðarbanka að fullu greitt 2005 – Landsbankinn greiddur að fullu 2003

Á föstudag í síðustu viku fengum við send afrit af kvittunum fyrir fullnaðargreiðslu á láni sem Samson tók í apríl 2003 vegna greiðslna á 35% af kaupverði á 45,8% hlut í Landsbankanum. Fjölmiðlar hafa haldið því fram að það lán væri ógreitt og þess vegna væri Samson í raun ekki búið að borga fyrir Landsbankann. Þetta er rangt. Samson greiddi íslenska ríkinu að fullu árið 2003 samtals 139 milljonir bandaríkjadala fyrir hlut sinn í Landsbankanum. 65% þeirrar fjárhæðar kom úr vasa okkar, eigenda félagsins, – 35% voru fengin að láni í Búnaðarbanka Íslands eins og kaupsmningur við ríkið heimilaði og var það lán greitt að fullu í apríl 2005.

Fréttablaðið greindi frá því á síðasta ári að Samson eignarhaldsfélag ehf. skuldaði Kaupþingi um 5 milljarða króna og að lánið hefði verið tekið þegar Samson keypti 45,8% hlut í Landsbankanum 2003. Þetta var ekki sannleikanum samkvæmt því ógreidda lánið var frá desember 2005 og var tekið vegna fjárfestinga í fasteignafélaginu Samson Properties. Þessi ranga frétt setti af stað keðju frétta, umsagna og yfirlýsinga um að Samson skuldaði ríkinu enn fyrir Landsbankann, að Samson hefði tekið allt að láni og félagið hefði eiginlega aldrei borgað bankann og að umrætt lán væri síðasta lánið undir sólinni sem ætti að afskrifa. Við reyndum að leiðrétta þennan fréttaflutning en vorum ekki í aðstöðu þá til að styðja mál okkar með gögnum þar sem þau tilheyrðu þrotabúi Samsonar. Fréttablaðið sagðist standa við sína frétt og átti blaðið eftir að endurtaka ósannindin. Eftir leit fundust gögn sem sýna að Samson greiddi lánið sem tekið var til að greiða um 35% af kaupverði Landsbankans í apríl 2005. Lánið sem enn er ógreitt var tekið í desember sama ár og átti að koma til greiðslu í október 2008 en þá hafði Samson verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir að helsta eign félagsins, sem voru hlutabréfin í Landsbankanum, höfðu verið yfirtekin af fulltrúum íslenska ríkisins. Af þessu tilefni sendum við, fyrrum eigendur Samson, frá okkur eftirfarandi yfirlýsingu þann 9. mars 2010:

 

„Yfirlýsing frá fyrrum eigendum Samsonar eignarhaldsfélags ehf:

Lán frá Búnaðarbanka til Samsonar var að fullu greitt 2005 – Hlutur Samsonar í Landsbankanum var að fullu greiddur 2003 að stærstum hluta með eigin fé.

Vegna rangrar og villandi umfjöllunar í fjölmiðlum um lánaviðskipti Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupa félagsins á hlut í Landsbanka Íslands hf. telja fyrri eigendur nauðsynlegt að koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri.

Viðskipti Samsonar og Búnaðarbanka Íslands hf. hófust í apríl 2003 með lánssamningi að upphæð 48,3 milljónir bandaríkjadala. Þá höfðu eigendur félagsins átt áralöng og farsæl viðskipti við bankann.

– Tryggingar voru veittar með veði í hlutabréfum Samsonar í Landsbanka Íslands hf. að markaðsverðmæti sem nam tvöfaldri lánsfjárhæðinni.

– Þvert á yfirlýsingar fyrrum bankastjóra Búnaðarbankans þá voru engar sjálfskuldarábyrgðir gefnar vegna þessa láns.

Lán þetta rann til að greiða aðra greiðslu af þremur fyrir 45,8% eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. sem Samson keypti af íslenska ríkinu. Samson greiddi umrætt bankalán að fullu með áföllnum vöxtum á gjalddaga þann 29.apríl 2005, samtals að fjárhæð 51, 2 milljón bandaríkjadala.

Greiðslan og lánið voru í fullu samræmi við kaupsamning íslenska ríkisins og Samsonar sem undirritaður var 31. desember 2002. Í þeim samningi setti seljandi , íslenska ríkið, engin skilyrði um hvar kaupandi gæti tekið lán fyrir hluta kaupanna. Hins vegar var gerð krafa um að eigið fé kaupanda væri ekki lægra en 35%. Samson greiddi fyrir 45,8% hlut sinn í Landsbanka Íslands hf. eins og hér segir:

– Í febrúar 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 48,1 milljónir bandaríkjadala.

– Í apríl 2003 greiddu eigendur 48,3 milljónir bandaríkjadala með láni frá Búnaðarbanka Íslands hf.

– Í desember 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 42,7 milljónir bandaríkjadala.

Heildargreiðslur námu samtals 139,0 milljónum bandaríkjadala, þar af voru 90,8 milljónir fjármagnaðar af eigendum eða 65% . Þær voru greiddar að fullu inn á reikning ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York í árslok 2003 og átti þá sér stað fullnaðaruppgjör vegna kaupa Samsonar á hlut ríkisins í Landsbankanum. Það er því rangt að Samson skuldi íslenska ríkinu einhverja fjármuni vegna umræddra kaupa.

 

Í ljósi ofangreindra staðreynda liggur þvi fyrir eftirfarandi:

– Samson eignarhaldsfélag ehf. greiddi íslenska ríkinu árið 2003 að fullu fyrir 45,8% hlut í Landsbanka Íslands samtals rúmlega 139,0 milljónir bandaríkjadala.

– Fjárframlag eigenda Samsonar við kaup á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands nam 65% af heildarfjárhæð viðskipta, en aðeins var gerð krafa um 35% eigið fé. Eiginfjárframlag eigenda var því nærri tvisvar sinnum hærra en íslenska ríkið fór fram á.

– Lán sem Samson fékk frá Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupa á Landsbanka Íslands hf. var greitt að fullu ásamt áföllnum vöxtum á gjalddaga í apríl árið 2005 eða fyrir nærri 5 árum.

Samson átti í frekari lánaviðskiptum við Kaupþing eftir sameiningu þess og Búnaðarbankans vegna ýmissa annarra fjárfestinga. Tvö lán voru tekin árin 2004 og 2005 sem voru að fullu greidd fyrir mitt ár 2007. Í desember 2005 tók Samson lán að fjárhæð 3,8 milljarðar króna. Tryggingar voru teknar í hlutabréfum félagsins auk sjálfskuldarábyrgðar. Hluti fjárhæðarinnar var greiddur á gjalddaga í desember 2007 og var þá gerður nýr lánasamningur um eftirstöðvar með hærri vöxtum. Áfram stóðu veðbönd á hlutabréfum félagsins og sjálfskuldarábyrgð. Gjalddagi þessa nýja láns var 10.desember 2008 en áður en sá dagur rann upp, eða í október sama ár, hafði ríkið yfirtekið hlut Samsonar í Landsbankanum sem var helsta eign félagsins og Samson hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það er af þessu seinni tíma láni sem Kaupþing, – nú Arion banki, hefur krafið ábyrgðaraðila um greiðslur og er það alveg óskylt kaupum á hlutabréfum Landsbankanum fyrir sjö árum. Viðræður standa yfir um uppgjör þeirrar kröfu.“

Með þessari yfirlýsingu sendum við á nokkra fjölmiðla einnig kaupsamninginn sem við undirrituðum við íslenska ríkið á gamlársdag 2002, lánasamninginn sem við gerðum við Búnaðarbankann og Sólon Sigurðsson undirritaði fyrir hönd bankans og afrit af kvittunum fyrir greiðslu á láninu en þær eru dagsettar 26. apríl 2005. Þar sem kerfi bankans gat ekki gefið út kvittun fyrir allri upphæðinni í einu er henni skipt niður í fimm kvittanir sem samtals er talan 51,2 milljón bandaríkjadala.