Fjárfestar bera alltaf ábyrgð
Margir hafa lýst því yfir að sækja þurfi eigendur Landsbankans til ábyrgðar vegna Icesave. Þar hafa stjórnmálamenn, álitsgjafar, fjölmiðlamenn, málpípur annarra hagsmunahópa og ýmsir aðrir bloggarar ekki látið sitt eftir liggja. Björgólfur Thor Björgólfsson telur sig bera ábyrgð á eigin gjörðum. Hann er fjárfestir sem þýðir að hann hættir sínum fjármunum í uppbyggingu fyrirtækja. Ef illa fer þá axlar fjárfestirinn ábyrgð, – hann tapar sínum peningum. Persónulegt tap Björgólfs Thors vegna hruns íslenska fjármálakerfisins nam um 100 milljörðum króna. Þeir sem kalla eftir aukinni ábyrgð hans vegna Iceasve hljóta að gera það í ljósi staðreynda um aðild hans að rekstri Landsbankans og á grundvelli laga og reglna í vestrænum lýðræðis- og réttarríkjum.