Umsókn til Fjármálaeftirlits
12.nóvember 2002 sendi Samson umsókn til Fjármálaeftirlitsins og leitaðist eftir samþykki þess fyrir því að félagið eignaðist virkan eignarhlut, 45,8%, í Landsbankanum. Það samþykki var eitt skilyrða einkavæðingarnefndar. Fram kom að félagið var stofnað 4. September 2002. Stofnhlutafé var 1.500.000. krónur. Björgólfur Thor Björgólfsson var eigandi 50% hlutar, Björgólfur Guðmundsson 33% og Magnús Þorsteinsson 17%. Stjórn félagsins var heimilt að auka hlutaféð um allt að 10 milljarða króna. Eiginfjárframlag Samson í kaupunum á Landsbankanum var sagt verða um 30% og greitt í reiðufé. Fyrir lá staðfesting frá Merrill Lynch bankanum að kaupendur hefðu fjárhæðina til reiðu. Samið hafði verið við Dawney, breskt fjármálafyrirtæki, um aðstoð við fjármögnun á allt að 70% kaupverðsins. Eiginfjárframlag eigenda Samson yrði 32 milljónir bandaríkjadala og lánsfjármagn 64 milljónir dala. Það yrði tryggt með handveði í safni hlutabréfa Í Pharmaco og Landsbankanum að markaðsverði um 96 milljónir dala. Handveð á móti lánum væri þannig 150%. Það hlutfall væri talið vel viðunandi. Fram kom að eignarhlutur þremenninganna í Pharmaco hf. væri að markaðsvirði 15,4 milljarðar króna. Í umsókninni til fjármálaeftirlitsins gerðu þremenningarnir ennfremur ítarlega grein fyrir öllu eignarhaldi og stjórnarsetu í öðrum fyrirtækjum. Þá sendu þeir einnig svör við spurningum FME þann 9. desember.