Straumur yfirtekinn gegn vilja eigenda og stjórnenda
Straumur stóð frammi fyrir umtalsverðum lausafjárvanda í byrjun mars 2009. Í febrúar hafði bankinn óskað eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands og samkvæmt því sem kemur fram í grein eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing, og birt var í tímaritinu Þjóðmálum sumarið 2010 studdi fjármálaráðuneytið þá fyrirgreiðslu m.a. vegna þessi mikilvæga hlutverks sem Straumur gegndi þá í íslensku bankakerfi. Í áðurnefndri grein kemur fram að hik hafi komið á stjórnsýsluna. Seðlabankamenn og fjármálaráðuneytismenn hafi verið áhugalitlir og flóttalegir og að stjórnvöld hafi talið það pólitíska áhættu að grípa til aðgerða sem hægt væri að túlka sem einhverskonar stuðning við Björgólf Thor Björgólfsson, stjórnarformann bankans. William Fall , þáverandi forstjóri Straums, fannst íslensk stjórnvöld vera eins og höfuðlaus her og að vantað hafi bæði reynslu og þekkingu til að takast á við þau vandamál sem við blöstu. Á þessum dögum var ekki starfandi forstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu og nýráðinn bankastjóri Seðlabankans, sem var lítt kunnur aðstæðum á Íslandi, þekkti ekkert til málefna bankans. Á sunnudeginum 8. mars 2009 var ljóst að ósk Straums um lán til þrautavara hjá Seðlabanka Íslands yrði synjað. Stjórn bankans og stjórnendur ætluðu í framhaldi að óska eftir því að fyrirtækið yrði sett í greiðslustöðvun. Áður en til þess kom ákvað stjórn FME að morgni mánudagsins 9. mars 2009 að nýta heimildir í neyðarlögum sem samþykkt voru á Alþingi í október 2008 og yfirtaka eignir og starfsemi bankans. Það var gert gegn vilja stjórnar og stjórnenda bankans. Hægt er að lesa nánar um aðdraganda falls Straums í áðurnenfndri grein Björns Jóns Bragasonar. Í þeirri grein vekur sérstaklega athygli hversu erfitt er að fá upplýsingar frá opinberum aðilum um forsendur ákvarðana stjórnvalda.
Hér að neðan er stiklað á stóru í atburðarás mánudagsins 9. mars og daganna sem á eftir komu eins og frá var greint í samtímaheimildum:
9.3.2009
- 8.01: Skilanefnd tekur Straum yfir.
- 10. 43: Starfsmenn Straums í Danmörku bíða átekta.
- 11.11: Thomas Haugaard, hagfræðingur hjá Svenska Handelsbanken í Kaupmannahöfn, segir að með falli Straums Burðaráss séu auknar líkur á þjóðargjaldþroti.
- 11.54: Straumur lækkar um 99,42% í Kauphöllinni.
- 11.57: Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að fleira hafi komið til en skortur á 33 milljónum evra í lausafé.
- 13.15: Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður FME, segir að ein ástæðan fyrir því að FME tók Straum yfir hafi verið að breska fjármálaeftirlitið, FSA, hafi ætlað að loka dótturfélagi Straums í Bretlandi.
- 16.07: Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að fall Straums myndi væntanlega ekki hafa umtalverð áhrif á fjárhag hins opinbera. Endanlegt mat lægi ekki fyrir en svo virtist sem um 60 milljarða króna innistæður myndu falla undir innistæðutryggingar íslenska ríkisins. Hins vegar ætti bankinn eignir á móti og því benti ekkert sérstakt að þessar fjárhæðir féllu á ríkið.
- Fall Straums gæti haft miklar afleiðingar í Danmörku, skv. mbl.is.
- Mbl.is: Fjallað um yfirtöku Straums í Danmörku og Bretlandi.
10.3.2009
- Morgunblaðið birtir fréttaskýringu um málið, þar sem kemur fram að fulltrúar Straums töldu aðrar leiðir hafa verið færar. Ein slík leið var að ríkið tæki yfir innlánasafn bankans og eignir á móti og setti það í sérstakt félag. Þá hefði ekki þurft að breyta um eignarhald á bankanum. Samkvæmt upplýsingum frá Straumi var bankinn búinn að semja við alla sína lánveitendur nema innlánseigendur. Bankinn hafi verið í söluferli og verið búinn að selja eignir og hefði átt von á frekara fjármagni síðar í vikunni.
- Dótturfélag Straums í Finnlandi, eQ Bank, starfar áfram þrátt fyrir fall móðurfélagsins og er nýrra eigenda nú leitað, samkvæmt frétt á vef Helsingen Sanomat.
- Íbúðalánasjóður hefur sent frá sér tilkynningu í tengslum við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Straumi í gær þar sem fram kemur að fjárhagsleg staða sjóðsins verði ekki fyrir áhrifum frá yfirtökunni.
12.3.2009
- Lífeyrissjóðir tóku út af innstæðureikningum í Straumi og átti það þátt í að veikja lausafjárstöðu bankans sem að lokum varð honum að falli, skv. fréttaskýringu Björgvins Guðmundssonar í Mbl.
- Straumur sendir frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að „Straumur tilkynnti til Kauphallar um endurfjármögnun á 133 milljónum evra eins og reglur Kauphallar gera ráð fyrir. Straumur sá ekki ástæðu til að tilkynna um viðkomandi veðlán frekar en önnur veðlán sem bankinn hefur tekið hjá Seðlabanka Íslands, enda er slíkt ekki venja hvorki hjá Straumi né öðrum bönkum.“