Prúðuleikararnir

Hér má sjá greinina á Pressunni.

Skjöl Framkvæmdarnefndar um einkavæðingu varðandi sölu ríkisbankanna 2002 til 2003 eru  fyrir margar sakir fróðleg lesning. Fyrst og fremst  vegna þess að þau  opinbera hina miklu leiksýningu, sem einkavæðing bankanna var. Aðalleikarar skúespilsins var Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, sem var listilega  stýrt af forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Í  Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafa frá stofnun nefndarinnar verið valdir sauðtryggir og prúðir flokksgæðingar. Menn sem tryggt var að hefðu enga sjálfstæða skoðun á einkavæðingu heldur fylgdu í blindni fyrirmælum leiðtogum flokka sinna.

Við einkavæðingu ríkisbankann fóru með aðalhlutverk, Ólafur Davíðsson, Baldur Guðlaugsson, Jón Sveinsson og Sævar Þór Sigurgeirsson. Menn handgengir, ef ekki handbendi, formanna stjórnarflokkanna tveggja,  þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þessir menn þekktu hlutverk sitt  og engin hætta var á að þeir fipuðust í uppfærslu leikritsins.

Menn Davíðs

Sjálfsstæðismennirnir í hópnum, Ólafur Davíðsson og Baldur Guðlaugsson, voru menn forsætisráðherrans, Davíðs. Hann hafði kom þeim fyrir, sem ráðuneytisstjórum í forsætis- og fjármálaráðuneytum í stjórnartíð sinni. Nefndarstörfin voru bitlingar Ólafs og Baldurs. En bitlingar hafa jafnan verið búbót fyrir stjórnarráðsmenn. Þegar Davíð hvarf í utanríkisráðuneytið og lét Halldóri eftir forsætisráðuneytið kom Davíð  Ólafi í starf sendiherra Íslands í Þýskalandi. Ólafur mun vera þar enn.  Vonandi verður þáttur hans í einkavæðingu ríkisbankanna skoðaður af rannsóknarnefnd Alþingis, þó í forsæti hennar sitji Páll Hreinsson lögfræðingur, sem fékk drjúg verkefni úr forsætisráðuneytinu í tíð Davíðs og Ólafs. Spurningar um hæfi munu ekki vefjast fyrir Páli.

Baldri Guðlaugssyni vegnaði vel  í skjóli Davíðs og Sjálfstæðisflokksins.  Ríkisstjórnarskiptin í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar fyrr á þessu ári kipptu hins vegar Flokksstoðunum undan Baldri. Og hið ótrúlega gerðist; Baldur var settur í leyfi frá störfum í fjármálaráðuneytinu – sendur heim á fullum launum til að lesa blöðin. Kannski ekki skrítið að maðurinn færi í leyfi, þar sem skuggi hafði fallið á æru hans, þegar upp komst eftir hrun bankakerfisins í október 2008, að strákurinn Tumi hafði selt hluti sína í Landsbanka Íslands mánuðinn á undan, þá nýkominn úr ferð á kostnað ríkissjóðs til Lundúna. Í ferð þeirri hafði hann fengið að vita, sem embættis- og sendimaður þjóðarinnar, að Landsbanki  Íslands ætti í vanda.

Sala Baldurs á hlutum sínum í Landsbanka Íslands er nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Baldur er hins vegar nýkominn úr leyfi og starfar að menntamálum þjóðarinnar, sem ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins. Kannski þarf menntamálaráðherrann að  senda Baldur í leyfi eða fá honum einhver sérverkefni, eins og venja er í stjórnsýslunni þegar vandmál koma upp. Sérverkefni Baldurs gæti verið gerð námsskrár á sviði fjármálalæsi, þar sem Baldur sá það að sögn fyrir, einn fárra Íslendinga, af lestri fjölmiðla í september 2008 að bankakerfið væri að hrynja.  Gott ef fleiri hefðu verið svo glöggir.

Menn Halldórs

Framsóknarmennirnir í nefndinni voru sérlegir gæðingar Framsóknar. Höfðu í  gegnum tíðina  verið valdir af forystu Framsóknar til setu í nefndum, ráðum og stjórnum fyrir flokksins hönd  þegar hann átti þess kost að koma mönnum að við ríkisjötuna. Ekki skipti máli  hver formaður Framsóknar var hverju sinni; hvort hann  hét Ólafur, Steingrímur eða Halldór.  Og kannski er það einmitt svo í Framsókn að  flokksgæðingarnir  ráða flokknum í raun; ráða því hverjir komast til valda á Framsóknarheimilinu eða ná pólitískum frama. Með því gátu flokksgæðingarnir tryggt að þeir fengju örugglega  í sinn hlut þau gæði ríkisins, sem Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum tíðina talið sig eiga helmingstilkall á móti Sjálfsstæðisflokknum.

Framsóknarheimilið naut á árum einkavæðingar ríkisbankanna fjárhagslegs stuðnings úr sjóðum fyrrum Sambandsfyrirtækja, sem fyrir einhverja tilviljun höfðu m.a. ratað í hendurnar á Ólafi nokkrum  Ólafssyni, sem oft er kenndur við  Samskip. Ólafur og aðrir fjáraflamenn Framsóknar vildu ríkisbanka árið 2002.

Ólafur Ólafsson setti saman S-hópinn með Þórólfi kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki, frænda Davíðs.  Innan S-hópsins mátti svo síðar sjá önnur og kunn Framsóknarfés, svo sem Finn Ingólfsson, fyrrum þingmann, viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóra Framsóknar. Embætti Seðlabankastjóra sleppti Finnur sjálfviljugur, sem er fátítt um embættismenn á þeim bæ, á haustdögum 2002 til að gerast forstjóri VÍS hf., sem var hluti af S-hópnum.

Tryggingafélagið VÍS byggði annars vegar á tryggingastofnum Samvinnutrygginga gt. og hins vegar Brunabótafélags Íslands. Sjóði og eignir, sem eftir urðu í Samvinnutryggingum við stofnun VÍS í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar notuðu Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, eftirmaður Finns í embætti viðskiptaráðherra, og fleiri Framsóknarmenn til að stofna Gift fjárfestingarfélag á árinu 2006. Gift var við stofnun sagt eiga hluti að vermæti um 30 milljarða í Exista. Félagið keypti svo drjúgan hlut í Kaupþingi banka seint á árinu 2007.

Eignir Giftar eru nú allar forgörðum farnar og engin ber ábyrgð, enda eiga valinkunnir Framsóknarmenn hlut að máli. Slíkum mönnum verður ekki refsað frekar en góðum og gegnum Sjálfsstæðismönnum. Sama hver brot þeirra eru.

Samningur gerður á leynifundi

Exista og Kaupþing eru á vissan hátt skilgetin afkvæmi einkavæðingar Búnaðarbanka Íslands, eða var það kannski öfugt. Sá grunur læðist að manni eftir að hafa lesið Ævintýraeyju, Ármanns Þorvaldssonar,  að  S-hópur Framsóknarmannanna hafi aðeins verið leppur litla fjárfestingarbankans Kaupþings í Ármúla, sem þá var undir stjórn Sigurðar Einarssonar.  Sigurður Einarsson átti ekki upp á pallborðið hjá Davíð árið 2002 eftir orrustuna, sem þeir háðu um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á sumarmánuðum 1999.

Framsókn vissi að Sigurð Einarsson  mátti ekki sjást með S-hópsmönnum meðan verið var að koma hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í réttar hendur.

Til umræðu á fundi prúðuleikaranna í Framkvæmdanefnd um einkavæðingu þann 6. janúar 2003 var sala á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.  Á fundinum sagði Ólafur Davíðsson frá samtali við Ólaf Ólafsson. Samkvæmt fundargerðinni upplýsti Ólafur nafna sinn Davíðsson um að S-hópurinn væri langt kominn með samning við erlenda fjármálastofnun og  að ráðgjafar frá franska bankanum Societe Generale væru á leið til landsins. Af fundargerðinni verður ekki ráðið að Ólafur Davíðsson hafa spurt nafna sinn að því hver þessi erlenda fjármálastofnun væri.  Því síður spurði Ólafur Davíðsson Samskipanafna sinn að því hvers vegna franski bankinn Societe Generale væri orðinn ráðgjafi S-hópsins en ekki þátttakandi í kaupunum eins og fyrr hafði verið kynnt fyrir Framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

Nokkru síðar skrifaði Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra undir sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins.  Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson óku brosandi í braut. Í  Ármúlanum beið Sigurður Einarsson í Kaupþingi eftir því að taka Búnaðarbankann yfir á grundvelli samnings, sem dreginn hafði verið upp á vikulöngum leyndarfundi haustið 2002 í skrifstofuhúsnæði hér í borg. Á vormánuðum 2003 var formlega gengið frá sameiningu Búnaðarbankans við Kaupþing.

Engar fréttir bárust af hinum erlenda fjárfesti aðrar en þær að hingað til lands var fenginn þýskur maður að nafni Peter Gatti, með litarfhaft suður-Evrópubúa, til að vera viðstaddur undirskrift samningsins um sölu Búnaðarbankans með Valgerði og nöfnunum Davíðssyni og Ólafssyni. Peter Gatti var á mála hjá litlum þýskum  prívatbanka, Hauck und Aufhäuser. Sá banki skráði aldrei neina hluti í Búnaðarbanka Íslands í bækur sínar. Því síður nokkurn söluhagnað þegar hann hvarf úr hópi hluthafa. Bankinn var enda aldrei eigandi neinna hluta í Búnaðarbanka Íslands hf.

Prúðir flokksgæðingar, ekki fagmenn

Einkavæðing ríkisbankanna, var eins og aðrar einkavæðingar ríkisfyrirtækja, einkavinavæðing, þar sem prúðir flokksgæðingar, en ekki fagmenn, léku ábyrga hagsmunagæslumenn ríkissjóðs. Prúðuleikararnir fjórir sem sátu á fundi í stjórnarráðinu þann 6. janúar 2003 á kostnað skattgreiðenda höfðu ekkert um sölu Búnaðarbankans að segja. Hlutverk Framkvæmdanefndar um einkavæðingu fólst í því einu að koma  verðmætu eignum ríkisins í réttar hendur. Hendur þeirra, sem Davíð og Halldór höfðu valið, og samráðherrar þeirra urðu að samþykkja sem kaupendur hvað sem tautaði eða raulaði. Með vali sínu á kaupendum ríkisbankanna lögðu Davíð og Halldór grunninn að eyðileggingu íslenska bankakerfisins. Kaupendum var leyft að skuldsetja eignarhlutina. Samsonhópurinn fékk  lán til kaupa á Landsbankanum hjá Búnaðarbanka Íslands og  S-hópurinn fékk  lán til kaupa á Búnaðarbankanum hjá Landsbanka Íslands. 

Davíð og Halldór ,,seldu“ því í raun hluti ríkisins í Lands- og Búnaðarbankanum að mestu fyrir lánsfé, sem kom úr bönkunum sjálfum. Við fall Landsbankans og Kaupþings fyrir rúmu ári kom í ljós að lán þess voru enn ógreidd að nokkru.

Er rétt að flokkar með þessa sögu komi að stjórn landsins í bráð?