Kolkrabbinn missir Eimskip

 

Eftir einkavæðingu ríkisbankanna komst mikil hreyfing á eignarhald íslenskra fyrirtækja.  Helstu eigendur HF Eimskipafélags Íslands voru áhrifamestir allra  í íslensku atvinnulífi og höfðu verið lengi. Fyrir utan dótturfélögin Brim, sem var stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Burðarás og Eimskip voru eigendur HF Eimskipafélags Íslands ráðandi í fyrirtækjum á borð við Flugleiði, Sjóvá-Almennum tryggingum og Íslandsbanka auk þessa að hafa sterka stöðu í Marel, OgVodafone og TM Software. Þegar leið á árið 2003 voru ýmis teikn á lofti um að þessi valdahópur, sem í um tvo áratugi hafði verið kenndur við kolkrabba í íslensku atvinnulífi, ætti í erfiðleikum með að verja stöðu sína í öllum þessum fyrirtækjum.  Félag Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, Samson Global Holding og Landsbankinn höfðu um nokkurt skeið haft sterka stöðu í Straumi fjárfestingabanka hf. en það félag hafði með hlutafjárkaupum  í Eimskipafélaginu aukið mjög á þrýsting þar en Samson Global Holding var einnig orðið stór hluthafi í Eimskipafélaginu. Þá stóðu einnig átök um yfirráð í Flugleiðum og Íslandsbanka og því var spenna í hluthafahópi margra íslenskra stórfyrirtækja.

Þann 19. september 2003 losnaði tímabundið um spennuna því þá áttu sér stað margþætt viðskipti sem leiddu til þess að nýir eigendur undir forystu Landsbankans komu að HF Eimskipafélagi Íslands en gamla veldið hélt áhrifum sínum í Flugleiðum, Sjóvá-Almennum, Straumi og Íslandsbanka. Tilkynning var send á Kauphöll um að Landsbanki Íslands hf., Íslandsbanki hf., Fjárfestingarfélagið Straumur hf., Samson Global Holdings Ltd., Sjóvá-Almennar tryggingar hf. ,  Burðarás hf. og Otec Investment Corporation hefðu gert með sér samkomulag um verðbréfaviðskipti. Viðskiptin sem áttu sér stað þennan septemberdag fólu í sér eftirfarandi tilfærslu hlutabréfa

Hlutabréf í HF Eimskipafélagi Íslands:

  • Valréttarsamningur: 10,95% af heildarhlutafé frá Sjóvá-Almennum til Burðaráss.
  • Framvirkur samningur: 10,41% af heildarhlutafé frá Straumi til Burðaráss.
  • Framvirkur samningur: 5,89% af heildarhlutafé fer frá Straumi til Landbankans.

Hlutabréf í Sjóvá-Almennum tryggingum:

  • Framvirkur samningur: 11,40% af heildarhlutafé fer frá Burðarási til Íslandsbanka.

Hlutabréf í Íslandsbanka:

  • Framvirkur samningur: 4,88% af heildarhlutafé fer frá Burðarási til Íslandsbanka.

Hlutabréf í Flugleiðum:

  • Framvirkur samningur: 31,74% af heildarhlutafé fer frá Burðarási til Straums.

Hlutabréf í Straumi:

  • Framvirkur samningur: 9,64% heildarhlutafjár fer frá Landsbankanum til Straums.
  • Framvirkur samningur: 10,12% heildarhlutafjár fer frá Landsbankanum til Íslandsbanka.
  • Framvirkur samningur: 14.02% heildarhlutafjár fer frá Samson Global Holding til Íslandsbanka.
  • Framvirkur samningur: 3,37% heildarhlutafjár fer frá Otec Investment Corp til Íslandsbanka.

Þetta þýddi að um 28% hlutur í Eimskipafélaginu skipti um hendur þó þannig að óbeinn eignarhlutur þess í Flugleiðum (32%) fór til Straums og í Sjóvá (11%) fór til Íslandsbanka og að samtals nærri 40% eignahlutur í Straumi féll í skaut Íslandsbanka og Straums sjálfs.

Af þessum viðskiptum má sjá hversu eignarhald íslenskra fyrirtækja var samofið á þessum tíma og hvernig aðkoma nýrra aðila inn í eitt fyrirtæki raskaði jafnvægi í öðrum. Kló kolkrabbans hafði víða tök.

Eftir þessi uppskipti var kosin ný stjórn HF Eimskipafélags Íslands og varð Magnús Gunnarsson formaður hennar. Fór í hönd tími mikilla endurskipulagningar og uppstokkunar sem leiddi m.a. til sölu á Brimi og aukinnar áherslu félagsins á fjárfestingar, bæði heima og erlendis.