Kaupa 65% hlut í búlgarska Landssímanum
Eigendur leiddu gagngerar breytingar á félaginu og seldu innan 4 ára með um 60 milljarða króna hagnaði
Í janúar 2004 náði Carrera, félag í meirihluta eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, og fjárfestingafélagið Advent International, ásamt hópi annarra smærri fjárfesta, samkomulagi um kaup á 65% hlut í Bulgarian Telecommunication Company, BTC, af búlgarska ríkinu. Smærri fjárfestar í Carrera voru m.a. íslensku félögin Síminn, Straumur og Landsbankinn. Kaupin voru háð skilyrðum og það var svo í júní 2004 að öll skilyrði voru uppfyllt og gengið var frá lokasamningum. Kaupin voru gerð í nafni Viva Ventures. Kaupverð var sem nemur 24 milljörðum íslenskra króna og fjármagnaði Carrera fjórðung kaupverðsins. Þrír fjórðu hlutar voru fjármagnaðir hjá bönkunum Bank Austria, Creditanstalt, Citigroup og Þróunarbanka Evrópu.
Í nóvember 2005 náði félag undir forystu Björgólf Thors, Novator Telecom Bulgaria, samkomulagi við Advent International sem fól í sér að Novator eignaðist kauprétt á öllum bréfum Advent í BTC .
Björgólfur Thor var í stjórn BTC frá júlí 2004 til júní 2006. Þegar hann vék úr stjórn félagsins tóku tveir fulltrúar Novators sæti í stjórn félagsins. Í maí 2007 seldu félög Björgólfs Thors og aðrir fjárfestar BTC til bandaríska fjárfestingarfélagsins AIG. Heildarverðmæti sölunnar var um 130 milljarðar króna eins og fram kom m.a. í breska blaðinu Financial Times. Áætlaður söluhagnaður félaga tengdum Björgólfi Thor var um 60 milljarðar og hagnaður annara íslenskra fjárfesta var um 6 milljarðar króna.
Á árunum 2004 til 2007 tók fyrirtækið miklum breytingum. Félagið breyttist á undraskjótum tíma úr stöðnuðu austur evrópsku fastlínu-símafyrirtæki í framsækið markaðsfyrritæki sem bauð stafræna og nútímalega fjarskiptaþónustu undir merkjum Vivacom. Breytingarnar voru unnar undir forystu stjórnar og eigenda sem töldu rétt að skipta þrisvar sinnum um forstjóra á tímabilinu.