Kaup á kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands 2002
Landsbanki Íslands hf. var einkavæddur á gamlársdag 2002, þegar Samson eignarhaldsfélag ehf. keypti 45,8% hlut í bankanum. Á undan hafði gengið einkavæðingarferli sem eigendur Samson gerðu oftar en einu sinni athugasemdir við.
Samson var að ríflega helmingi í eigu Givenshire Ltd., eignarhaldsfélags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, að um 34% í eigu Bell Global Ltd., sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar og að 14% hluta í eigu félags Magnúsar Þorsteinssonar. Á árinu 2005 seldi Magnús hlut sinn í Samson og áttu því Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson helming hvor í félaginu eftir það.
Samson átti á árunum 2003-2008 alltaf á bilinu 41-46% hlut í Landsbankanum. Félagið tók þátt í öllum hlutafjárútboðum og hlutafjáraukningu í Landsbankanum og hafði greitt samtals 30,1 milljarð króna fyrir hlut sinn þegar skilanefnd á vegum íslenska ríkisins yfirtók rekstur bankans.
Markmið kaupanna
Markmið eigenda Samson ehf. með fjárfestingunni í Landsbankanum var að breyta honum, stækka og bæta og gera hann áhugaverðan í augum erlendra fjárfesta. Þar var einkum horft til þess möguleika að sameina Landsbankann erlendum, væntanlega alþjóðlegum, banka. Bjögólfur Thor gerði ítrekað í viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla grein fyrir almennum viðhorfum sínum til fjárfestinga og var fjárfestingin í Landsbankanum aldrei undanskilin. Samson seldi aldrei eitt einasta hlutabréf í Landsbankanum þó svo verðgildi þeirra hefði margfaldast. Markmiðið var að Landsbankinn yrði hluti af stórum alþjóðlegum banka og vildi Samson ekki veikja stöðu sína innan bankans fyrr en því takmarki væri náð. Eins og kemur fram í samantekt um sameiningartilraunir Straums er ljóst að á árunum 2007 og 2008 var unnið ítrekað að sameiningu Straums og Landsbankans og þá í tengslum við mögulegan samruna við erlendan þriðja aðila. Aðstæður komu oft í veg fyrir að af þessari sameiningu yrði en áhugaleysi stjórnenda Landsbankans hafði einnig áhrif á gang mála eins og fram kemur í umræddri skýrslu.
Starfshættir bankaráðs
Í kjölfar kaupanna tók Björgólfur Guðmundsson sæti sem formaður bankaráðs Landsbankans og gegndi því starfi uns skilanefnd tók yfir rekstur bankans þann 7. október 2008. Andri Sveinsson og Þór Kristjánsson sátu einnig í bankaráði fyrir hönd Samsonar. Í skýrslu um starfshætti bankaráðs kemur fram aðild bankaráðs að mikilvægum ákvörðunum bankans á þessum tíma og þátttaka í stjórnun hans. Björgólfur Thor Björgólfsson átti eins og gefur að skilja mikilla hagsmuna að gæta í Landsbankanum og fylgdist hann vel með umsögnum matsfyrirtækja, greiningardeilda alþjóðlegra banka og eftirlitsaðila um alla þætti í starfsemi bankans. Hann kom hins vegar ekkert nærri rekstri bankans. Hann treysti forystu föður síns í Landsbankanum, hann sat aldrei í bankaráði Landsbankans og tók ekki þátt í ákvörðunum er varðaði rekstur hans.
Halldór J. Kristjánsson var bankastjóri Landsbankans allt þetta tímabil og Sigurjón Þ. Árnason var ráðinn til bankans skömmu eftir að Samson ehf. eignaðist hlut sinn, í apríl árið 2003. Hér má sjá skýrslu þeirra um starfsemi Landsbankans og þá atburðarás sem leiddi til falls íslensku viðskiptabankanna í október 2008.