Björgólfur Thor gerir athugasemdir
29. júlí sendi Björgólfur Thor Björgólfsson einkavæðingarnefndar bréf og benti á að sameiginlegur skilningur þyrfti að vera á efni bréfs þremenninganna frá 27.júní er þeir sýndu fyrst áhuga og einnig á þeim skilyrðum sem þar voru sett fram. Auk þess þyrfti að liggja fyrir hvaða vinnubrögð yrðu viðhöfð að hálfu nefndarinnar áður en lengra væri haldið. Af tóni bréfsins mátti ráða að Björgólfur væri ekki ánægður með þau. Bent var á að þremenningarnir hefðu lagt í kostnað og fyrirhöfn og meðal annars ráðið erlenda bankasérfræðinga til að gera úttekt á bönkunum. Það hafi verið gert í trausti þess sem fram hefði komið í fjölmiðlum að einhugur væri um sölu á kjölfestuhlut í bönkunum. Það hefði því komið sér verulega á óvart að heyra viðskiptaráðherra segja í fréttum að hún gæti ekkert fullyrt um það hvort bankarnir yrðu seldir. Á meðan þetta viðhorf væri ríkjandi taldi Björgólfur of mikla óvissu og stefnuleysi einkenna málið. Í ljósi þessa vildi hann fá svar við sex spurningum. Fengjust ekki svör við þeim sagði hann ógerlegt að meta hvort hann og félagar hans hefðu áhuga á að fjárfesta í bönkunum. Björgólfur Thor sendi frá sér tilkynningu til fjölmiðla vegna þessara samskipta við einkavæðinganefnd. 7.ágúst hafði bréfinu enn ekki verið svarað og sendi lögmaður Björgólfs ítrekun. 16. ágúst barst svarbréf. Þar var áréttað að það væri skýr stefna ríkisstjórnarinnar að selja hlutabréf ríkisins í bönkunum tveimur. Sem svar við gagnrýni Björgólfs á vinnubrögð svaraði nefndin því til að verklag í viðræðum og forsendur sem stuðst yrði við yrðu ákveðin í samráði við þá sem hlut ættu að máli.