Ágreiningur um framlög á afskriftareikning LÍ

Björgólfur Thor Björgólfsson benti fyrst á það í bréfi 4. September 2002 (áður en tilkynnt var að gengið yrði til viðræðna við Samson) að framlög á afskriftareikning Landsbankans væru verulega vanmetin. Það sæist glöggt á uppgjöri fyrstu sex mánaða ársins. Í fyrstu áreiðanleikakönnun á bankanum 15. Nóvember 2002 komu einnig fram vísbendingar um þetta. Einnig komu fram ábendingar frá Fjármálaeftirlitinu og PricewaterhouseCoopers  um að framlag í afskriftarreikning hefði verið í algeru lágmarki. Áreiðanleikakönnun KPMG, sem unnin var fyrir Samson, sýndi  fram á það sama. Þar sagði að veruleg frávik væru á bókfærðu virði eigna bankans og raunstöðu. Það var mat Samson manna að þar sem frávikið væri verulegt þyrfti að styrkja bankann töluvert með hlutafjáraukningu. Þeir töldu einnig að yfirstjórn Landsbankans, bankaráð og Ríkisendurskoðandi hefðu með skiplögðum hætti vantalið framlag á afskriftareikning útlána í því skyni að fegra afkomu bankans. Kom þetta fram í bréfum frá Samson til einkavæðingarnefndar sem send voru 13. desember og 17. desember og ítrekað 23. desember 2002. Einkavæðingarnefnd svaraði þessu í bréfi 24. desember og sagði að ef framlög á afskriftarreikning reyndust ekki hafa verið nægjanleg væri hún tilbúin að skoða afslátt á kaupverði allt að 400 milljónum en alls ekki meira. Þegar kaupsamningur var svo gerður 31. Desember 2002 var kveðið á endurmat á eignum bankans skyldi gert í október 2003. Því var svo flýtt til 30 júní 2003. Með yfirlýsingu Samson og ríkisins frá 10. Nóvember 2003 náðist sátt í málinu og gengið var frá því að Samson fengi  700 milljón króna afslátt á kaupverðinu. Í minnisblaði lögmanna kaupenda koma fram skýrar forsendur þess afsláttar.