Stöð 2 fjallaði hlutfallslega minnst um Jón Ásgeir

Mynd-B-Ljosvaki-2010Í athugun Creditinfo á umfjöllun ljósvakamiðla á þessu ári um nokkra nafngreinda einstaklinga sem voru í forystu fjármálafyrirtækja í aðdraganda hrunsins 2008 kemur í ljós að Stöð 2 fjallar hlutfallslega minna um Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálma Haraldsson en aðra úr hópi þeirra sem fjölmiðlar fjölluðu mest um. Auk þeirra tveggja eru það Sigurður Einarsson,  Hreiðar Már Sigurðsson og ég, Björgólfur Thor Björgólfsson sem ljósvakamiðlarnir beina kastljosi sínu helst að. Stöð 2 fjallar á hinn bóginn hlutfallslega mest um mig og Sigurð Einarsson. Á sex mánaða rannsóknartímabili fjallaði sjónvarpsstöðin 30 sinnum um mig eða oftar en bæði Fréttastofa Sjónvarps og Fréttastofa Útvarps sem þó eru báðar með tvo útsendingartíma á dag en Stöð 2 bara einn. Í ljósi niðurstaðna sambærilegrar könnunar á prentmiðlum sem greint var frá í síðustu viku blasir við er að minna er fjallað um Jón Ásgeir Jóhannesson í fjölmiðlum í eigu fjölmiðlarisans 365 miðlar ehf. en aðra í umræddum hóp.

 

Í athugun þessari, sem var framkvæmd að minni ósk, kannaði Creditinfo umfjöllun ljósvakamiðla frá því snemma í  mars 2010 og allt fram í aðra viku september eða í slétta 6 mánuði. Mikilvægt er að hafa í huga að á þessu tímabili birtist skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og embætti sérstaks saksóknara í málum tengdum hruninu greip til opinberra aðgerða við rannsókn mála sem tengjast Kaupþingi.

Áhugavert er að skoða framlag einstakra fjölmiðla til heildarumfjöllunar um þessa fimm einstaklinga. Af þeim 192 fréttum sem ljósvakamiðlar birtu um Jón Ásgeir Jóhannesson á þessu 6 mánaða tímabili birtu Stöð 2 og Bylgjan, um 36% þeirra en fréttastofur Ríkisútvarps um 64%. Þegar þetta hlutfall er kannað hjá öðrum í umræddum hópi kemur í ljós að 52% allra ljósvakafrétta um Sigurð Einarsson birtust á Stöð 2 eða Bylgjunni en 48% á RÚV – ýmist sjónvarpi eða útvarpi. Hafa ber í huga að útsendingatímar RÚV eru fleiri en hjá Stöð 2 vegna þess að virka daga eru tveir fréttatímar í ríkissjónvarpinu. Um helmingur ljósvakafrétta um mig birtist í miðlum 365 miðla ehf. og 43% ljósvakafrétta um Hreiðar Má Sigurðsson birtust á Stöð 2 og Bylgjunni en Pálmi Haraldsson er næstur Jón Ásgeiri hvað þetta hlutfall varðar en 40% fréttanna um hann birtust á einkastöðinni.

Það liggur því fyrir að Stöð 2 og Bylgjan fjölluðu hlutfallslega minna um Jón Ásgeir og Pálma en okkur Sigurð og Hreiðar Má. Þessir ljósvakamiðlar sáu þar með síður ástæðu en RÚV til að fjalla um þá tvo en okkur.

Heildarfjöldi frétta:

Umföllun um: Bylgjan RÚV Sjónvarp RÚV Útvarp Stöð 2 Samtals
Jón Ásgeir Jóhannesson 34 56 66 36 192
Sigurður Einarsson 26 26 31 36 119
Hreiðar Már Sigurðsson 19 29 28 25 101
Björgólfur Thor Björgólfsson 19 21 28 30 98
Pálmi Haraldsson 14 22 21 16 73

 

Hlutdeild hvers ljósvakamiðils:

Mynd-B-Ljosvaki-2010

Áhugavert er að skoða muninn á áherslum sjónvarpsfréttastofanna tveggja en eins og kunnugt er þykja það einna áhrifamestu fréttamiðlar landsins. Þar kemur í ljós að fyrir hverjar 10 fréttir sem RÚV Sjónvarp birtir um Jón Ásgeir birtir Stöð 2 6,4 fréttir. Ef áhugaleysi Stöðvar 2 um Jón Ásgeir stafaði af minni áhuga fréttastofunnar á útrásarvíkingum ætti hlutfallsfjöldi frétta um aðra að vera sá sami og gilti um Jón Ásgeir en svo er ekki. Fyrir hverjar 10 fréttir sem RÚV Sjónvarp birti um mig birti Stöð 2 14,3.

Hlutfall fjölda frétta – samanburður á RÚV Sjónvarpi og Stöð 2

  RÚV – Sjónvarp Stöð 2
Björgólfur Thor 1 1,43
Sigurður Einarsson 1 1,38
Hreiðar Már Sigurðsson 1 0,86
Pálmi Haraldsson 1 0,72
Jón Ásgeir Jóhannesson 1 0,64

 

Samanburður við prentmiðla

Með hliðsjón af niðurstöðum sambærilegrar könnunar sem CreditInfo vann um fréttir prentmiðla á sama rannsóknartímabili kemur í ljós að mest er þar fjallað um sömu einstaklinga þó svo að röð þeirra sé þar önnur. Segja má að Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson skjótist upp fyrir mig í vinsældum hjá fréttastjórnum ljósvakamiðlanna í samanburði við vinsældir hjá ritstjórnum blaðanna.

Annað sem blasir við er að minna er fjallað um Jón Ásgeir Jóhannesson í fjölmiðlum í eigu fjölmiðlarisans 365 miðlar ehf. Á það bæði við um ljósvakamiðla og prentmiðla því Fréttablaðið fjallaði á þessu tímabili áberandi minna um Jón Ásgeir en aðrir prentmiðlar. Svipaða sögu er raunar að segja um viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldsson, og er því augljóst að rit- og fréttastjórnir sem starfa á vegum 365 miðla er tregari til að draga þessa tvo menn fram í dagsljósið en aðrir miðlar.

Eignarhald á ljósvakamiðlum og fréttastjórnir

Rétt er að hafa í huga að Jón Ásgeir Jóhannesson tengist rekstrarfélagi Stövar 2 og Bylgjunnar, 365 miðlum ehf. Hann var aðaleigandi félagsins þar til í lok mars 2010 þegar eiginkona hans tók yfir um 90% hlut í félaginu. Þá hafa verið sagðar fréttir af tengslum Pálma Haraldssonar við 365 miðla ehf. Aðrir af þeim athafnamönnum sem mest var fjallað um koma ekki nærri rekstri ljósvakamiðla svo vitað sé. Óþarfi ætti að vera að geta þess að RÚV er í eigu ríkisins eða Ríkisútvarpsins ohf. og fer fjármálaráðherra með 100% eignarhlut í félaginu. Á rannsóknartímabilinu sagði fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, Óskar Hrafn Þorvaldsson, af sér og var enginn skipaður í hans stað fyrr en á haustmánuðum að Kristján Már Unnarsson var ráðinn fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Engar breytingar urðu á skipan fréttastjóra RÚV á rannsóknartímabilinu en þar var fréttastjórn í höndum Óðins Jónssonar.